Leitarhundar
Hafðu samband

Nokkrir punktar um víðavangsleit – Grein e. Steinar Gunnarsson

Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna vegna víðavangsleitarþjálfunnar með hundum. Sérstaklega til að menn glöggvi sig á því hvað þarf til svo að sem bestur árangur náist með hvern og einn hund. Við erum búin að vera nokkuð dugleg að æfa hér eystra undanfarið og margt jákvætt sem maður hefur verið að sjá og vonandi koma þessir punktar þeim að gagni sem eru að byrja, og hinum væntanlega líka.

Fyrst skal nefna hundakynið sem unnið er með. Vinnuhundakyn þau sem við notumst helst við eru ræktuð með mismunandi verkefni í huga og eru þær ræktunaráherslur það sem við m.a. höfum að leiðarljósi við þjálfun hunda. Sem dæmi má nefna fuglahunda eins og labrador. Þeim er eðlislægt að nota nefið til að leita uppi bráð, og því er auðvelt, ef rétt er að farið, að kenna þeim að nýta nefið til að finna mann, eða hvað sem er nánast. Eins er þeim eðlislægt að sækja og því liggur bringselsþjálfun sérstaklega vel við þeim (þó ég mæli ekki með því).

Sheffer hundar eru af sumum flokkaðir sem “fjárhundakyn” en þó myndi ég persónulega velja mér eitthvað annað ef ég væri að leita mér af fjárhundi. Vel ræktaðir sheffer hundar hafa aftur á móti sterka dráps- og veiðihvöt og af þeim sökum þarf maður að fara mjög gætilega í þjálfunina og gæta þess að missa aldrei stjórnina yfir hundinum. Passa þarf alla átakaleiki við hundinn og æsing. Þeir eru hins vegar, ef vel tekst til, frábærir vinnuhundar og miklir félagar.

Border Collie er líklegast hentugasta hundakynið fyrir víðavangsleit en þó er eitt og annað sem þarf að hafa í huga þegar maður þjálfar BC. Þeir eru ræktaðir sem fjárhundar og kemst ekkert hundakyn með hælana þar sem þeir hafa tærnar í þeim efnum. BC er þekktur fyrir “dáleiðandi augnaráð” eða þeir leita eftir augnkontakt við bráðina (féð). Þeir nota augun mikið og það þarf maður m.a. að hafa í huga þegar verið er að kenna þeim að leita, með því að nota nefið. BC er skarpgreindir hundar og jafn fljótir að læra vitleysurnar eins og það rétta og því er brýnt að þjálfarinn sé alltaf með það á hreinu hvað hann hyggst gera og hvernig.

Það sem þarf að vera til staðar til að hundur henti í víðavangsleit eru nokkur grundvallaratriði eða hvatir. Þær eru: veiðhvöt, drápshvöt (kannski ljótt orð en ég finn bara ekkert annað yfir það), leitarhvöt, og síðast en ekki síst umhverfisstöðugleiki og rík flokkshvöt.

Ef þetta er allt til staðar og ríkt í dýrinu þá ættu líkurnar að komast alla leið að vera miklar. Það byggist hins vegar á því að fá rétta þjálfun (tamningu). Ein smá mistök í þjálfun geta haft alvarlegar afleiðingar og því brýnt að notaðar séu viðurkenndar aðferðir við þjálfunina og allri tilraunastarfsemi haldið í algjöru lágmarki.

Þættir sem hafa ber í huga við upphaf þjálfunnar:

Leikfang (verðlaun).
Ekki er rétt að hefja þjálfun fyrr en búið er að finna verðlaun fyrir hundinn (hvati). Ef hundurinn fær ekki viðundandi verðlaun eru líkurnar á því að hann endurtaki æfinguna minni en ella.
Umhverfisstöðugleiki:
Hundurinn þarf að vera öruggur í umhverfinu sem æft er í áður en æfingin er lögð upp.
“Fígúrant”:
Nauðsynlegt er að hafa góðan fígúrant sem veit nákvæmlega hvað á að gera og hvernig á að bregðast við.
Stikkorð (hljóð)
Eitthvað sem hundurinn síðan tengir við verkefnið. Muna að gefa ekki nema eina skipun, ekki tönglast í orðinu, hljóðinu og nota jákvæðan tón.
Ekki bogra yfir hundinn þegar hann er sendur af stað.
Ekki byrja æfinguna fyrr en búið er að undirbúa hana, m.a. með þvi hvernig skuli bregðast við því sem upp kann að koma.

Þetta eru nokkur atriði sem skipta miklu máli og efni í heila bók og rúmlega það ef á að fara að kafa í fræðin sem slík. Enginn einstaklingur er eins og er það leiðbeinandans að sjá hvað hentar hverjum og einum.

Ég mæli eindregið með því þegar menn ætla að fá sér hvolp eða hund að velja hund úr VIÐURKENNDRI vinnuhundaræktun, en ekki vera að reyna að finna upp hjólið aftur og aftur og takast það ekki…… Það er búið að vinna þá vinnu fyrir okkur af mönnum sem eyddu æfistarfi sínu í að framrækta hundakyn svo þau nýttust sem best í vinnu. Því ekkert annað fyrir okkur að gera en að velja sér rétta hundinn og fá ábyrgan og reyndan aðila til að aðstoða við það. Síðan má nefna að þeir vinnuhundaræktendur sem ég þekki, bæta gallaða hunda með þvi að láta kaupandann fá annan hvolp eða peningana til baka.

Gangi ykkur vel og verið dugleg að æfa.

08.06.2006
Steinar Gunnarsson, leiðbeinandi

streamextreme.cc