Leitarhundar
Hafðu samband

Lög fyrir Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar

1. grein

Nafn, tilgangur og merki

Leitarhundar Slysavarnafélagsins Landsbjargar er samstarfs og fagvettvangur fyrir björgunarsveitarmenn sem sérhæfa sig á sviði þjálfunar hunda til leitar- og björgunarstarfa. Merki þeirra er LEITARHUNDAR Slysavarnafélagsins Landsbjargar með bláum stöfum á hvítum grunni, með hundshaus í miðju Íslenska fánans.

2. grein

Inntökuskilyrði

Fullgildir félagar geta þeir einir orðið sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

a) Vera fullra 18 ára og hafa starfað með Leitarhundum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í 12 mánuði.

b) Vera fullgildir félagar í björgunarsveit.

Hundaeigendum allra björgunarsveita er frjálst að gerast félagar í Leitarhundum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Þeir sem ekki eru teknir inn að starfstímanum liðnum falla út og skulu sækja um aftur. Inntökubeiðnir og úrsagnir skulu vera skriflegar og sendast til Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Við úrsögn getur félagi ekki gert tilkall til eigna Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

3. grein

Stjórn og skipulag

Í hverjum landshluta Slysavarnafélagsins Landsbjargar þar sem leitarhundar eru á vegum björgunarsveita skal mynda hóp hundaeigenda. Hóparnir kjósa sér hópstjóra sem mynda jafnframt stjórn Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Þeir velja úr sínum hópi ritara, gjaldkera og meðstjórnendur. Stjórnarmenn eru trúnaðarmenn hópsins hver á sínu svæði og ábyrgir gagnvart hópnum og samskiptum hans út á við. Stjórn Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar fer með ákvörðunar- og framkvæmdavald milli aðalfunda og skal funda eins oft og þurfa þykir. Halda skal fund ef tveir eða fleiri stjórnarmenn óska þess.

Félögum er skylt að láta stjórn eða einstaka fulltrúa hennar annast samskipti við opinbera aðila sem tengjast starfi Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

4. grein

Stjórnun í aðgerðum

Hópstjórar fara með yfirstjórn Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar í aðgerðum á sínum svæðum og annast öll samskipti við viðkomandi leitarstjórnir. Engum öðrum er heimilt að annast samskipti né taka ákvarðanir nema að höfðu samráði við hópstjóra. Hópstjóri getur skipað annan í hans stað ef þörf krefur. Ef félagsmaður verður uppvís að hegðun eða athæfi sem brýtur í bága við reglur Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar og eða almennt siðgæði skulu mál hans verða tekin fyrir af stjórn. Hægt er að víkja viðkomandi af útkallslista ef um gróft brot er að ræða.

5. grein

Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Skal hann haldinn í marsmánuði ár hvert og boðaður með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Ársskýrsla skal liggja fyrir á aðalfundi til skoðunar. Atkvæðisrétt hafa aðeins fullgildir félagar. Fyrir fundinum skal liggja kosning landshlutana á hópstjórum og varahópstjórum. Formaður Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar er kosinn á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skal skilað til stjórnar a.m.k. 15 dögum fyrir aðalfund. Á aðalfundi er kosið í fræðslunefnd sem starfar eitt ár í senn. Fræðslunefnd skal skipuð 3 mönnum, þar af 2 kosnir á aðalfundi og sá þriðji skipaður af stjórn, þar af skal minnst einn vera leiðbeinandi. Fræðslunefnd vinnur að tillögum varðandi úttektarreglur, námskeiðshald og fræðsuefni til félagsmanna. Fræðslunefnd skilar tillögum til stjórnar til frekari afgreiðslu. Aðalfundur samþykkir breytingar á reglum um úttektir. Aðalfundur lýtur almennum fundarsköpum. Tveir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir á aðalfundi. Breytingar á reglum þessum verða einungis gerðar á aðalfundi. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til skoðunar.
  3. Lagabreytingar.
  4. Kosning formanns.
  5. Kosning endurskoðenda.
  6. Kosning fræðslunefndar.
  7. Önnur mál.

6. grein

Fjármál

Slysavarnafélagið Landsbjörg styrkir starf Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Stjórn Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar ákveður hvernig styrkjum verður veitt. Reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember.

7. grein

Ráðstöfun eigna

Verði Leitarhundar Slysavarnafélagsins Landsbjargar lagðir niður og engin starfsemi fer fram í 5 ár, skulu eignir Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar renna til Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Samþykkt á aðalfundi Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Seyðisfirði 11.mars 2001. 

streamextreme.cc