Leitarhundar
Hafðu samband

Leitartækni með víðavangsleitarhunda og siðferði í leitum

Grein eftir: Steinar Gunnarsson.

Hákon talaði við mig í dag og lýsti ánægju sinni með pistilinn minn um upphafsþjálfun víðavangsleitarhunda og óskaði eftir því í leiðinni að ég setti eitthvað á blað um raunverulegar leitir. Ég settist því niður og henti neðangreindum texta saman á met tíma og vona að þetta komi að góðu gagni.

Nú koma nokkur atriði sem hafa ber í huga þegar hundateymið er komið á þann stað í þjálfuninni að það er farið að leita ákveðin svæði og/eða fara í raunverulegar leitir. Þessir punktar eru einnig nauðsynlegir og tímabærir eftir leitina á Möðrudalsöræfum í síðasta mánuði en þar hefði mátt fá mun meira út úr hundunum en gert var miðað við þær upplýsingar sem ég hef um þá leit.

Eitt af því fyrsta sem ber að hafa í huga þegar maður fer af stað að leita er vindáttin. Því það er, eðli málsins samkvæmt, mun líklegra til árangurs að leita upp í vindinn en undan honum þar sem lyktin berst m.a. með vindinum. Eins ber að hafa í huga uppstreymi og niðurstreymi og er það misjafnt eftir því á hvaða tíma sólarhrings er verið að leita (ég bendi á bókina “Scent and the Scenting dog” í því samhengi en hana rakst ég fyrst á í Skotlandi fyrir u.þ.b. 13 árum síðan og tók með mér heim. Hún var svo íslenskuð og á að vera til hjá LSL).

birta og gusti i utkalli Nú hefur hundinum verið kennt það að þegar honum er gefið ákveðið hjóðmerki (leita eða finna mann) þá muni hann fljótlega finna mann og fá verðlaunin sín, það sem hann þarf að gera til þess er að leita upp í vindinn og nota til þess nefið. Þegar fyrst er farið af stað í svona leit/þjálfun er mjög áríðandi að hundurinn finni fljótt og fái góð verðlaun. Með því aukast líkurnar á því að hann endurtaki leikinn og þá jafnvel af mun meiri áhuga. Hins vegar, ef hundurinn þarf að leita lengi til að finna manninn, minnkar áhuginn og ákafinn í leitinni. Ef hundurinn finnur þá, eða þegar áhuginn er farinn að dofna eru líkurnar á því að næst þegar hann fær stikkorðið verði krafturinn (áhuginn) mun minni en áður. Því er ákaflega brýnt að æfingarnar séu settar þannig upp að þær henti hverjum og einum hundi. Hundurinn þarf að ráða vel við verkefnin og þau verða að vera byggð upp jafnt og þétt miðað við getu hundsins.
Með tímanum lengist svo smá saman tíminn á milli funda en þá er hundurinn orðinn það mikið taminn eða sigldur að hann veit að ef hann heldur dampi í leitinni þá finni hann á endanum. Eins þegar leitirnar lengjast þá finnur hundurinn sinn hraða sem hentar honum til að geta unnið sem lengst. Það er dýrinu eðlislægt þar sem þetta er veiðileikur. Þetta er langt ferli og það er grundvallaratriði að taka eitt skref í einu og vanda sig til að markmiðin náist.

Raunverulegar leitir:

Raunverulegar leitir geta verið með ýmsu sniði eins og gefur að skilja og mis krefjandi og erfiðar. Reynslan hefur nú sterklega kennt okkur að það getur verið varasamt að fullyrða að um hvert viðkomandi sé lífs eða liðinn þótt langur tími sé síðan hann týndist. Allar alhæfingar og fyrirfram gefnar skoðanir um hegðun, styrk- og veikleika þess týnda skulu aldrei vera leiðandi í skipulagningu leita heldur einungis til að styðjast við, því bæði náttúran og maðurinn eru sífellt að koma á óvart.

bjartur hvildur i leitÞað sem m.a. hefur reynst mér best í gegnum tíðina í leitum, er aðstoð staðkunnugra manna, bænda og annarra sem þekkja fjöllin og landið – þá aðila skulum við aldrei vanmeta og heldur reyna að hlusta á og nýta okkur til aðstoðar. Það skiptir ekki máli þótt svo þeir eigi ekki Goritex galla, GPS og talstöð, eða hafi farið á fjallamennskunámskeið, þeir vita sínu viti og gagnast á við marga “Gorítexgalla”.
Við þurfum að sýna fagmennsku og ábyrgð og ana aldrei út í neitt sem við sjáum ekki fyrir endan á eða ráðum við.
Víðavangsleitarhundur er “tæki” sem leitar stór svæði á tiltölulega skömmum tíma, en þá ber að hafa í huga að um grófleit er að ræða. Kosturinn er ótvíræður þar sem líkurnar eru meiri á að hinn týndi finnst mun fyrr en ef svæðið yrði leitað af gangandi mönnum. Því er nauðsynlegt að leitar- og svæðisstjórnir hafi þekkingu á því hvernig sem bestri nýtingu er hægt að ná út úr hundunum. Ef sú þekking er ekki til staðar á umsvifalaust að óska eftir fagaðila til aðstoðar.

Það er bruðl á starfskröftum hunda að nota þá samhliða eða á undan leitarlínu þegar um stór leitarsvæði er að ræða. Heldur á að senda hundateymin ein með aðstoðarmanni á “heit”svæði þar sem þau geta farið hratt yfir og ef ástæða þykir þá er hægt að senda leitarlínu til að fínleita á eftir.

Þegar hundamaður vinnur með hundinn er nauðsynlegt að hafa aðstoðarmann með sem sér um fjarskipti, leiðsögu GPS o.s.fr. Ástæðan er sú að hundamaðurinn skal hafa sem mesta athygli á hundinum og hvað hann er að gera. Hundamaðurinn á að vera það mikill fagmaður að hann þekki þegar hundur hans er á mannalykt eða lykt af dýrum eða einhverju öðru. Allar tilkynningar til leitarstjórnar um að hundur hafi tekið lykt af þessu eða hinu skal varast, þar sem þær gætu beint leitinni í rangar áttir og einungis tilkynna ef hundur hefur fundið lykt af manni. Við getum í langflestum tilfellum reiknað með því að hundurinn geri ekkert annað en það sem hann hefur verið þjálfaður til og því getum við ekki leyft okkur, ef við teljum okkur fagmenn, að vera með órökstuddar vangaveltur um eitthvað annað.

Ég get nefnt sem dæmi að ef þjálfari sporhunds væri fenginn til að rekja slóð af einhverjum sem týnst hefði. Hann héldi af stað með hundinn og hundurinn ræki slóðina í einhverja ákveðna átt og týndi henni svo, við sjóinn eða á t.d. og segði þá þjálfarinn að þarna hefði sá týndi farið. Rannsókninni/leitinni væri síðan beint af fullum þunga í þá átt og ekkert fyndist. Síðan fyndist sá týndi skammt frá þeim stað þar sem hann fór frá, jafnvel látinn.
Það sem ég er að reyna að benda á hérna að við sem fagmenn ættum ekki að gefa út neinar yfirlýsingar nema þær sem við getum staðið við, ekki gera hugleiðingar okkar að óafturkræfum staðreyndum. Þetta hefur með siðferði að gera og gott að hafa bak við eyrað.

Þegar við hefjum leit með hundinum okkar getum við búist við því að vera að leita næstu tíu klukkustundirnar eða svo. Því ættum við að búa okkur í samræmi við það og flýta okkur hægt. Við ættum að halda öllum skipunum gagnvart hundinum í lágmarki og frekar notast við líkamsmálið. Þá á ég við að ef við göngum í ákveðna átt þá fer hundurinn í þá átt líka, í stuttu máli; framkvæma þennan veiðileik á sem náttúrulegastan hátt fyrir hundinn. Síðan er nauðsynlegt að stoppa reglulega og hvílast, klappa hundinum og hrósa honum með því að tala hvetjandi til hans. Ef við erum stressuð eða pirruð má hundurinn alls ekki finna fyrir því en það gæti komið niður á vinnugleði hans og sjálfsöryggi. Nauðsynlegt er að hundurinn fái að drekka reglulega og búum við Íslendingar svo vel af öllum lækjunum okkar og þvi er það sjaldnast vandamál. Varast ber að gefa hundinum mikið að borða þegar hann er í vinnu en þó er í lagi að lauma að honum litlum bita við og við. Hundur sem fer að vinna með fullan maga getur átt það á hættu að maginn í honum snúist og þá er hann sama og dauður, nema dýralæknir með allar græjur sé við hendina.

hvolpur aefdurÞegar hundur er búin að vera að leita í margar klukkustundir er mjög líklegt að hann fari að vera nær þjálfaranum, löngu útslögunum fækki og hann þreytist. Þá er brýnt að fylgjast vel með honum því hann er engu að síður en með skilningarvitin virk. Ef hann nær lykt af manni er líklegt að hann lyfti höfðinu, eða taki jafnvel spor, greikki ferðina og fari í átt að lyktinni. Á þessum tímapunkti er best að fylgja hundinum eftir því það er ekki endilega gefið að hann komi til baka og markeri þótt hann finni en hitt er nánast öruggt að hann fer að þeim týnda, eða uppruna lyktarinnar og kannar hvað það sé.

Þegar við lendum svo í því að finna í raunveruleikanum eru aðstæður oft þannig að ekki gefst kostur á að verðlauna hundinn á staðnum. Þá er best að hrósa honum með því að klappa honum og tala vel til hans. Síðan að setja út léttan fund fyrir hann áður en hætt er. Þetta getur oft verið erfitt þar sem sumar aðkomur eru óhugnalegri en aðrar og við kannski ekki upplögð í eitthvað fjör, en við getum ekki leyft okkur að sniðganga hundinn okkar, því þrátt fyrir allt er þetta bara skemmtilegur veiðileikur fyrir honum. Með góðum fundi og verðlaunum fær löng leit jákvæðan og góðan endir fyrir hundinn og líkurnar á því að hundurinn sé tilbúinn að endurtaka allt þetta mun meiri en annars.

Vona að þetta komi að einhverju gagni.

09.06.2006
Steinar Gunnarsson, leiðbeinandi

streamextreme.cc