Leitarhundar
Hafðu samband

Æfingar Leitarhunda

Til að halda við því góða leitartæki sem hundurinn er þurfum við að æfa mjög reglulega. Leitarhundar starfa í 4 hópum skipt eftir landshlutum: Norðurland, Austurland, Vestfirði og Suður-/Vesturlandshóp. Æft er reglulega víðs vegar um landið og er útgefið æfingaplan hjá hverjum hóp fram í tímann.

Öllum er velkomið að koma og taka þátt í æfingum, hvort sem er með hund eða sem hundlausir aðstoðarmenn.

Það tekur 2-3 ár ef allt gengur vel að koma upp fullgildum leitarhundi. Prófin eru 3 sem þarf að standast, ár þarf að líða milli prófa:

 • C = grunnþjálfun er lokið, leitarþjálfun má hefjast
 • B = leitarþjálfun er lokið, útkallsþjálfun má hefjast
 • A = útkallsþjálfun
 • Eftir það þarf að mæta annað hvert ár í A-endurmat

Vegna þess hve langan tíma tekur að þjálfa hundinn upp í A gráðu skilar það bestum árangri að koma með unga hunda til þjálfunar. Það skiptir því miklu að byrja sem fyrst, vera virkur og taka þátt í starfi björgunarsveitar.

Við erum fjölskylduvæn samtök en mestan metnað og tíma setjum við í æfingar fyrir hundana þegar við komum saman.

Hvað kostar að æfa með Leitarhundum?

Það kostar ekkert að æfa með okkur, æfingahelgar eru einnig fríar. Það kostar að koma á námskeið og taka próf. Hægt er að sækja um styrk fyrir námskeiðsgjaldinu hjá sinni björgunarsveit.

Nauðsynlegt er að koma sér upp grunnbúnaði björgunarmanns og sækja námskeið sem tilheyra Björgunarmanni 1 og 2 á vegum Björgunarskólans. Eingöngu þeir sem uppfylla kröfur Björgunarskólans og eru viðurkenndir félagar í björgunarsveit fá að reyna við B próf.

Hvað á að taka með á æfingu?

Tilkynna þarf þátttöku fyrir fram til hópstjóra eða félaga í hópnum sem æfa skal með. Athugið að hver æfing varir oft í minnst 2-3 klst.

Hvað þarf að hafa með á fyrstu æfinguna ?

 • Vera klædd-/ur í samræmi við veður (á veturna þarf að vera með vatnshelda vettlinga og auka par af vettlingum)
 • nesti og drykk
 • koma með hundinn
 • tauminn hans
 • uppáhaldsdótið/-in hans
 • smá nammi fyrir hundinn
 • stílabók / glósubók fyrir minnispunkta æfingarinnar
 • á veturna í snjóflóðaleit þarf : skóflu, skíðagleraugu, snjóflóðaýli.

Námskeið / æfingahelgar

Auk hefðbundinna æfinga í hópunum eru reglulega haldnar æfingahelgar og námskeið. Þá koma hóparnir saman til æfinga.

Æfingahelgar eru ýmist 2 eða 3 dagar. Námskeið eru ýmist 3 eða 5 dagar. Æft er frá kl. 9-17/18. Oft eru fyrirlestrar á kvöldin.

Verið vel búin miðað við veðurspá og hafið með ykkur svefnpoka, hitabrúsa og helstu nauðsynjar.

Hafið hundabúr og bæli með fyrir hundinn, mat og dalla, taum, dótið og hundanammi.

Það er mikið um að vera allan daginn á námskeiðum, munið að hreyfa hundinn ykkar reglulega og gefa þeim að drekka. Nestið ykkur að morgni fyrir allan daginn.

Prófin C-B-A og endurmat eru eingöngu tekin á námskeiðum. Taka þarf þátt í öllu námskeiðinu til þess að fá að taka próf.

Ráðleggingar vegna þjálfunar

Ráðleggingar vegna þjálfunar hundanna veita leiðbeinendur. Þeir stýra æfingum og námskeiðum. Þeir setja jafnframt fyrir heimaverkefni fram að næstu æfingu.

streamextreme.cc