Leitarhundar
Hafðu samband

Hlýðni – 1. hluti – Af hverju hlýðni

Hlýðni – 1. hluti – Af hverju hlýðni 
Grein eftir Kristínu Sigmarsdóttur leiðbeinanda Leitarhunda S.L.

Fyrsta sem við þurfum að athuga áður en við byrjum : “hvernig vill ég að hundurinn hagi sér með mér og í kringum mig ? hvernig vil ég að hann bregðist við skipunum mínum ” Því að málið er að þetta er þinn hundur og 15 ár úr lífi þínu sem þú munt deila með honum. Mikilvægt er að ef hundurinn á að verða leitarhundur þá sé honum vel sinnt. Þið verðið að eyða tíma saman og hann verður að virða þig sem foringja, hafa áhuga og vilja og TRAUST til að vinna með þér. Öll samvera ykkar á að vera skemmtileg hver sem hún er, hvort sem það er hlýðniæfing, kúrutími, leitaræfing eða viðrun.

Ég segi oft við nýliða á mínu svæði : þú átt að vera skemmtilegasta manneskjan/dýrið í huga hundsins og leitin á að vera skemmtilegasta samveran ykkar til þess að þið náið hámarksárangri. Ef að einhver annar nær betri árangri í að vinna með þinn hund eða er álitinn skemmtilegri af hans hálfu þá verðum við að bæta það! Þið þurfið að virka saman 100% sem teymi í framtíðinni.

Í þessari greinaröð er ætlunin að fara í gegnum helstu grunnatriði í hlýðniþjálfun. Hlýðniæfing er frábært tæki til eiga gæðastund með hundinum sínum. Á örfáum mínútum á dag nær eigandinn að bindast hundinum og þeir læra í sameiningu að þróa með sér tjáningarform. Slík þjálfun gerir samveruna með hundinum í framtíðinni að mörgu leyti mikið ánægjulegri fyrir vikið : hundurinn er afslappaðri, hlýðnari og auðveldara er að stýra honum inn í flókin verkefni eins og að leita að týndu fólki.

Þó vil ég taka fram áður en lengra er haldið að öllu má ofgera. Með því að kenna hundum of mikla hlýðni getum við tekið úr þeim ákveðið frumkvæði sem er þeim nauðsynlegt til þess að geta lokið leitarhundaþjálfun. Lykilorðið í hlýðniþjálfun er traust. Með því að búa til tjáningarform og sameiginlegt tungumál með hundinum okkar í gegnum hlýðnina myndum við traust. Til þess að skapa það þarf hlýðnina ALLTAF að vera skemmtileg og án allra þvingana eða skamma. Hundurinn má aldrei upplifa gremju af okkar hálfu, í hann má aldrei grípa eða slá til hans eða þvinga á nokkurn hátt. Hundur og eigandi eiga að vera afslappaðir og njóta samverunnar.

Stress er neikvæður þáttur þegar kemur að hlýðniþjálfun og viljum við að hundarnir séu stresslausir við hlýðniþjálfunina. (Athugið að þegar talað er um stress í hundaþjálfun þarf það ekki alltaf að vera neikvæður þáttur). Stress má t.d. sjá á öndun hunda, eyrnastöðu, munnstöðu og jafnvel augum. Hér er á ég við stress í merkingunni óöruggi. Móðir og másandi hundar / órólegir eru stressaðir hundar. Það er okkar eigendanna að lágmarka stressið í hundinum, besta leiðin til þess er að vera ekki með óraunhæfar kröfur til hundsins. Hundur sem er látinn gera æfingar sem hann skilur ekki verður stressaður. Þess vegna byrjum við með mjög stuttum æfingum og fáum endurtekningum sem síðan lengjast smám saman í gegnum æfingarferlið.

Mikilvægt er að kenna einungis eina æfingu í einu, þegar við erum orðinn viss um að hundurinn skilur hana þá kennum við næstu – þetta á sérstaklega við um hvolpa og ungahunda. Við blöndum ekki saman æfingum fyrr en mikið síðar á ferlinu. Ein æfing er gerð í einu. Algengt er að hundar sem kunna eitt “trix” reyni að sýna það til að þóknast okkur þegar við erum að kenna nýtt “trix”. Ekki skamma hann fyrir það (slíkt myndi auka á stressið) látið bara sem þið sjáið það ekki, bíðið róleg og haldið síðan áfram með æfinguna. Munið að hafa gaman af æfingunni.

Skipanir í hlýðni geta verið margskonar. Hægt er að gefa skipun með orðum, hljóðum, flautu, handahreyfingum, líkamsbeitingu og fleiru. Veljið það sem ykkur finnst þægilegast að nota. Einnig er hægt að blanda saman aðferðum. Gott er að hafa í huga að í framtíðinni vill maður geta gefið hundinum skipun úr fjarlægð jafnvel í gegnum margmenni þá komast orðin síður til skila en handahreyfing og/eða flauta myndir gera það.

Verðlaun fyrir hlýðni (og í raun alla þjálfun) byggir svolítið á áhuga hundsins. Matur/nammi eru vinsæl og þægileg verðlaun. Hægt er að nota hundamat, hundanammi, slátur, harðfisk, kjöt, pylsur og hvað eina sem hundinum finnst gott. Ef hundurinn er sólginn í mat þá eru matarverðlaun tilvalin en passið að velja það sem hann vill helst hvort sem það er nammi, dót eða munnleg viðurkenning. Munið að þetta er einstaklingsbundið. Í matarverðlaunum þarf að passa þarf að bitarnir séu ekki mikið stærri en svo að hundurinn missi ekki athyglina af æfingunni yfir í það að fara að éta (slíti sig upp úr skipun). Hægt er að nota dót (leik) sem verðlaun en þó er það óhentugt í tilfellum eins og að setjast/leggjast þar sem ætlast er til að hundurinn sé kyrr í skipuninni í smá tíma en dót er tilvalið til dæmis til að kenna innkall. Á seinni stigum má skipta út namminu og dótinu fyrir klapp eða munnlegt hrós. Best er að smám saman draga úr verðlaunum en sleppa þeim þó aldrei alveg. Þegar hundurinn veit ekki hverju hann á von á sem verðlaunum má gera ráð fyrir að hann sækist frekar í að koma til ykkar og hlýða.

Að lokum minni á það sem ég hef áður skrifað um skipanir í grein minni Foringjaæfingar :
Aðeins skal gefa skipun ef henni verður örugglega hlýtt. Foringinn segir aðeins það sem skiptir máli, maður hunsar ekki skipun foringjans. Þess vegna er mikilvægt að forðast síendurteknar skipanir og óþarfa blaður við hundinn. Hann skilur ekki hvað við segjum en hann skilur tóninn í röddinni og líkamstjáninguna. (Hér er mikilvægt að átta sig á að þegar talað erum foringja er ekki átt við harðstjóra! heldur þann sem leiðir leikinn og þann sem úthlutar og jafnvel aðstoðar við úrlausn verkefna.)
Skipun á þess vegna ekki að gefa nema henni sé hægt að framfylgja. Ef þú ert að kenna/æfa innkallið og ert ekki viss um hundurinn skilji æfinguna seturðu hann í langan taum/band og sérð til þess að hann komi til þín í kjölfar hverrar skipunar. Hann er einfaldlega halaður inn á bandinu ef hann kemur ekki af sjálfsdáðum. Hrós er mikilvægt að fylgi með í slíkum æfingum, mjúkur málrómur og líkamstjáning sem bíður hundinn velkominn.
Skipanir þarf að gefa með ákveðnum tón, lágri rödd (hvorki biðjandi, skærri né hvellri).
Notið líkamstjáninguna til að hjálpa ykkur og ef þarf notið stýringar til að láta hundinn hlýða sbr. að nota nammi eða ýta létt á rassinn á honum til að hann setjist osvfr. Notið hrós og verðlaun alveg óspart með skipunum til að auka líkur á að hann skilji að verkefnið sem hann var beðinn um að leysa hafi verið leyst.
Skipunin að liggja er mjög góð foringjaæfing. En hundurinn má ALDREI brjóta þá skipun. Ef hann kemst upp með það þá getiði ekki treyst því í framtíðinni að hann geti verið einn kyrr á skipun ef þið þurfið að bregða ykkur frá. Gerið liggja og kyrr æfingar nokkrum sinnum á hverjum degi, allir í fjölskyldunni ættu að vera með (hver í sínu lagi þó)

En aftur að upphafsorðunum hvernig á hundurinn þinn að haga sér í framtíðinni? Áður en hlýðniþjálfunin hefst fyrir alvöru sjáðu fyrir þér hvernig hundurinn þinn verður í framtíðinni að lokinni þjálfun – hvernig hund langar þig í, hvaða æfingar er mikilvægt að hann kunni, hvaða hlýðniæfingar eða trix telur þú að verði skemmtilegt að kenna honum. Settu þér markmið áður en vinnan hefst. Njóttu þess að vinna með hundinum þínum, alla ævi.

Smá lesning til hliðsjónar:

http://www.canismajor.com/dog/recall.html

Leitarhundar SL mars 2010 – lagfært september 2014
Hlýðni – Af hverju hlýðni
Kristín Sigmarsdóttir

streamextreme.cc