Leitarhundar
Hafðu samband

Foringjaæfingar

Formáli :
Grein þessi fjallar um foringjaæfingar sem allir hundaeigendur ættu að temja sér að gera með hundana sína. Að vera foringi er ekki að vera harðstjóri, foringi er leiðandi, hann úthlutar verkefnum og tekur þátt í að leysa þau. Foringi er vinur og félagi og til hans er alltaf hægt að leita. Foringi hvetur til réttrar hegðunar með jákvæðum aðferðum. Orðið foringi tengir fólk við gamaldags hundauppeldisaðferðir, ekki hengja ykkur í orðavalið.
Lögð var áhersla á æfingar sem henta vel hundaeigendum sem stefna að því að þjálfa upp hundinn sinn sem leitarhund – slíkir hundar eru oft orkumiklir og krefjandi. Efnið er ekki tæmandi, einnig er höfundur á þeirri skoðun að margar leiðir séu að sama markmiði. Allt lesefni sem þetta hér á að taka með fyrirvara og fara varlega í að breyta útaf þjálfun hunds enda eru hundar einstaklingar og það sem á við um einn á ekki endilega við um annan.
Með von um að efnið komi að góðum notum og að höfundarréttur efnisins verði virtur.
Kristín Sigmarsdóttir, leiðbeinandi.


Foringjaæfingar

Maturinn 

Hundar eiga að vera fóðraðir 1-2 x á dag. (3x með unga hvolpa). Ég kýs að fóðra með þurrfóðri.

Hundurinn er neðstur í virðingarröð heimilisins. Í náttúrunni er sá sem borðar fyrstur foringinn. Þess vegna fær hundurinn að borða þegar borðhaldi heimilisins er lokið. Mér þykir þæginlegt að hundarnir séu ekki partur af borðhaldinu, ég vil að þeir liggi afslappaðir annars staðar meðan fjölskyldan snæðir. Með því að gefa þeim þurrfóður (annan mat en við borðum) og kynna þeim strax venjurnar (að þegar búið er að borða og ganga frá fá þeir að borða) hefur mér tekist ætlunarverk mitt.

Hundurinn á ekki að fá að vera við matarborðið að betla mat eða biðja um athygli. Hann er beðinn um að bíða frammi meðan borðað er. Hann á ekki að liggja undir borðinu. Hundinum er engin athygli sýnd meðan á borðhaldi stendur. Um þetta þurfa allir fjölskyldumeðlimir að vera meðvitaðir ef ætlunarverk ykkar um hundlaust borðhald á að nást.

Hundurinn á að vita að maturinn kemur frá húsbóndanum. Til þess að tryggja það er hundinum gefið fóður og fyrirfram ákveðinn tími til að borða það. Ef hann er ekki búinn að borða matinn sinn t.d. innan hálftíma er maturinn tekinn frá honum. Þannig lærir hundurinn að maturinn er í boði þegar þú býður hann og ekki annars. (ekki láta matinn liggja á gólfinu þannig að hann geti borðað þegar hann vill – það gerir þér erfiðar fyrir að vita magnið sem hann borðar yfir daginn og ef það á að nota hundinn sem leitarhund þá er slæmt að geta ekki verið viss um hvort hann sé með orku í erfitt verkefni.)

Umgengni : dyr / bílar / búr / ganga í taum

Foringinn fer fremstur í flokki. Í náttúrunni er það sá sem er sterkastur sem er foringinn (ekki endilega líkamlega sterkastur heldur andlega sterkastur : andlega stabíll, klár, góður, samkvæmur sjálfum sér og alltaf sanngjarn). Foringinn kannar aðstæður og metur hvort flokknum sé óhætt. Þetta á alltaf við !

Foringinn fer því fyrstur út um dyrnar = allar dyr ! Hvort sem um er að ræða hurðar, hlið, bílhurðar, skotthurðar (búrhurðar). Nema hann bjóði öðrum að vera á undan sér.
Foringinn fer fyrstur og gefur síðan hundinum leyfi að koma út. Þegar um búr er að ræða þá er það foringinn sem opnar þegar honum þóknast (ekki meðan hundurinn bankar í hurðina eða geltir, heldur þegar hann er rólegur) og síðan gefur hann LEYFI til að fara út. Þetta er öryggisatrði að hundurinn skjótist ekki bara út í tíma og ótíma alveg sama hvað verður á vegi hans. Ætlunin er að vera með rólegan og yfirvegaðan hund sem kemur út nokkuð rólegur.

Ef hundurinn ætlar að rjúka út um dyrnar / búrið er árangursríkast að segja ekki orð heldur loka bara hurðinni á hundinn. Það hljómar kannski neikvætt en það sem hundurinn upplifir er að : ef ég skýst út þá lokast hurðin á mig. Ef ég bíð rólegur þangað til foringinn minn telur það óhætt þá kemst ég ómeiddur út. (Hurðin er vondi aðilinn – ekki eigandinn, eigandinn lætur vita þegar öllu er óhætt.) Mikilvægt er að hundurinn komist ekki upp með að rjúka út eins og áður sagði.

Best er að láta hundinn setjast og bíða. Hér þarf hann að kunna grunnhlýðni.

Ef hundurinn er að fara út einn (t.d. út í garð að gera þarfir sínar) á hann heldur ekki að rjúka út. Þú lætur hann setjast og bíða meðan hurðin er opnuð og síðan EF hann er rólegur og hagar sér vel þá fær hann leyfið. Ekki opna hurðina nema hann sé prúður. Ef hann stendur upp eða rýkur til, eftir að hurðin opnast, er henni bara lokað aftur. Hundurinn lærir að aðeins það að vera kyrr skilar árangri.

Sumir eru á því að í göngutúr sé það foringinn sem gengur fremstur en ekki hundarnir og kenna því hælgöngu – ég hef ekki tamið mér þann sið því ég hef viljað hvetja hundana mína til að rannsaka umhverfi sitt afslappaðir og óhræddir. Ég held nefnileg að það viðhaldi sjálfstæði þeirra. Ég hef hins vegar kennt þeim “my way” hælgöngu til að geta gengið með þá lausa en samt undir stjórn, þá hafa þeir gengið lausir með mér og átt að vera innan meters radíuss frá mér.

Eigandinn segir hvenær er pissustopp ekki hundarnir, svo ekki endilega stoppa við hverja þúfu þó hundurinn vilji það. Frekir hundar og háttstemmdir eru gjarnir á að ganga á lagið með þetta. Mínir hundar hafa hins vegar lifað það af hingað til að fá bara að pissa annað slagið í göngutúr. (Athugið að þetta á ekki við um hvolpa.)

Yfirráðasvæði

Foringinn ræður yfir sínu yfirráðasvæði og þangað kemur enginn óboðinn. Ef þú ert í sófanum og hundurinn ætlar að koma upp í, á hann ekkert að gera það nema fá boð um að koma. Hér kemur aftur inn á það sem ég hef áður sagt – hvað viltu þú að þiþnn hundur megi og hvað ekki?
Ef hann liggur á ganginum og þú ert að labba þar um þá á hann að færa sig ef þú þarft á því að halda (athugið hér á ég ekki við að sofandi hundur eigi að færa sig “af því bara”). Ef hann liggur í sófanum en þú vilt sitja þar þá á hann að færa sig. Annað er ekki í boði. Mótmæli eru ekki í boði. Þú ert foringinn og þú ræður, það er hans að taka tillit til þín.

Okkur finnst voða kósý að hundurinn komi upp í sófa og liggi á okkur. En í hundaheiminum getur þýtt að sá sem liggur á eða klesst upp við annan, hann ræður. Sá sem leggur þungann á annan er að sýna vald sitt. Stundum þýðir það þó að hanns é að leita eftir styrk … svo mikilvægt er að þú áttir þig á hvernig týpa er þinn hundur og hvers vegna gerir hann það sem hann gerir.

Ýttu við honum eða taktu í ólina hans og leiddu hann annað ef þú telur að hann sé að troða á þér viljandi. Láttu hann hlýða því sem þú biður um. Ef hann er ekki að samþykkja þetta þá þarftu að gera þetta að leik þínum að láta hann færa sig reglulega fyrir þér til þess að sýna honum hver ræður. Þetta er ekki illska eða stríðni þetta er nákvæmlega það sem foringjahundur myndi gera við annan sem væri að sæta færis til að taka við af honum. Þetta er spurning að finna að hundurinn sé samvinnuþýður og sé ekki að frekjast með yfirgang. (Athugið að slíkir hundar eru sjaldgæfir og þetta á alls ekki alltaf við).

Skipanir

Aðeins skal gefa skipun ef henni verður örugglega hlýtt. Foringinn segir aðeins það sem skiptir máli, maður hunsar ekki skipun foringjans. Þess vegna er mikilvægt að forðast síendurteknar skipanir og óþarfa blaður við hundinn. Hann skilur ekki hvað við segjum en hann skilur tóninn í röddinni og líkamstjáninguna.

Skipun á þess vegna ekki að gefa nema henni sé hægt að framfylgja. Ef þú ert að kenna/æfa innkallið og ert ekki viss um hundurinn skilji æfinguna seturðu hann í langan taum/band og sérð til þess að hann komi til þín í kjölfar hverrar skipunar. Hann er einfaldlega halaður inn á bandinu ef hann kemur ekki af sjálfsdáðum. Oftast er nóg að kippa einu sinni snöggt í tauminn og ná athygli hundsins og gefa skipunina aftur – ef það virkar ekki þá er hundurinn halaður inn á taumnum.

Skipanir þarf að gefa með ákveðnum tón, lágri, yfirvegaðri rödd (hvorki biðjandi, skærri né hvellri).

Notið líkamstjáninguna til að hjálpa ykkur og ef þarf notið stýringar til að láta hundinn hlýða sbr. að lokka hann með nammi eða ýta létt á rassinn á honum til að hann setjist osvfr. Notið hrós og verðlaun alveg óspart með skipunum til að auka líkur á að hann skilji að verkefnið sem hann var beðinn um að leysa hafi verið leyst.

Skipunin að liggja er mjög góð foringjaæfing. En hundurinn má ALDREI brjóta þá skipun, notið lausnarorð til að losa skipunina. Gerið liggja og kyrr æfingar nokkrum sinnum á hverjum degi, allir í fjölskyldunni. Þetta er öryggisæfing, því einhvern tíma þarftu kannski að skilja hundinn eftir í þessari stöðu meðan þú gerir eitthvað annað. (Mjög mikilvægt að leitarhundar geti þetta!)

Sigurvegarar

Varðandi leikinn okkar í leitinni. Ákveðnir hundar sem eru ekki vissir hvort þeir séu foringinn eða maðurinn þeirra eiga ekki að vinna dótið af foringja sínum. Sá sem vinnur dótið er foringinn. Þannig að það að leika við hund í reipitogi þýðir að frekur hundur á aldrei að geta togað dótið af eigandanum sínum (og stungið af með það) og unnið þannig. Eigandinn vinnur alltaf og þegar honum hentar þá hendir hann dótinu fyrir hundinn.

Sama á við um sækja-skila æfingar. Hundurinn á að sækja og skila ! Ekki bara sækja og fara einn eitthvert með dótið og skilja það svo eftir. Sá síðasti sem er með dótið (sá sem sækir það) hann er undirlægjan. Munið að sækja+skila er skemmtilegt. Ef þetta er að klikka hjá ykkur þá þarf bara að æfa þetta betur og á jákvæðari máta.

Mjög sterkir karakterar sem eiga að verða leitarhundar en fást alls ekki til að skila eiga ekki að fá að sækja dótið. Þeir leika bara við eigandann en aldrei einir. Til dæmis er þá hægt að hafa dótið í löngu bandi svo hundurinn stingi ekki af með það. Sbr. hunda sem við þekkjum af æfingum, sbr. Husky, fyrir þá er góður kröftugur leikur nóg en ekkert í eðli þeirra hvetur þá til að skila ! Um leið og reipitogið er búið og búið er að henda dótinu er það orðið dautt og óspennandi fyrir þá. Ekki láta þá komast upp með það, leikið bara reipitog hlutann en sleppið kastinu í lokin. Hreyfingarlaust dót er nefnilega dautt dót.

Athugið að með undirgefna hunda á þetta ekki við !! Undirgefnir hundar (litlar tíkur, oft Border Collie.) þurfa að fá að vinna dótið stundum til að byggja upp sjálfstraustið og fá að toga eigandann svolítið til sín. Þetta er einungis gert til að auka egóið þeirra í ákveðinn tíma síðan er því venjulega hætt.

Foringinn ákveður hvenær leikurinn er búinn. Ef við hættum á réttum tíma þá þyrstir hundinn í að hefja leikinn á ný næst þegar þú býður honum leik. (Foringinn kemur með dótið og býður leik. Foringinn stoppar leikinn.!!) Best er að hætta meðan leikurinn stendur sem hæst og hundurinn er á hátindi skemmtunarinnar. Best er að hætta áður en hann fer að spá í annað í umhverfinu. Eftir að leikurinn er búinn á foringinn að geta haldið á dótinu án þess að hundurinn sé að hoppa í það : „Foringinn segir að leikurinn sé búinn og ég virði það.“ Enginn hundur á að komast upp með það að djöflast í dótinu og heimta áframhaldandi leik. Það býður m.a. hættunni heim á slysum ef ókunnugur er að leika við hundinn t.d. barn.

Hundurinn á að fá boð í leik reglulega. Hann á ekki að vera með nein dót liggjandi hér og þar á gólfinu, slíkt gerir dót almennt óspennandi fyrir hundum. Þetta er amk. ekki boðlegt með leitardótið okkar þó við kjósum kannski að hafa annað dót heima við á gólfinu eða nagbein.

Ef hundurinn er sækir og elskar að sækja og skila þá læturðu hann skila til þín alveg við fætur þínar eða beint í lófann. Það er ekki til of mikils ætlast að hundurinn skili þér leikfang beint í lófann – þetta er bara spurning hvað þú vilt að hann geri fyrir þig. Foringinn á ekkert að þurfa að hafa fyrri lífinu hann fær allt afhent upp í fangið á sér. Mjög algengt með Border Collie þeir henda við fætur þess sem á að henda fyrir þá og bakka frá þeim, Border Collie skipar fólki að leika við sig með þessari hegðun. Athugið vel þetta er sama concept hér = að hundurinn ákveður ekki að sækja eitthvað og biður ykkur að henda ! Þið ákveðið hvenær er leikið. Ignorið slíka hegðun ef hundurinn er með þráhyggju og heimtar mikið leik með slíkri hegðun, ef hann kemur með eitthvað til ykkar og kastar við fætur ykkar. Látið það alveg liggja kyrrt eða takið upp og fjarlægið það.

Athugið að ákveðnar tegundir eins og Schaeffer, Husky, stundum Labrador, eru líklegri til að sækja dótið og reyna að fá ykkur til að elta sig. Enn og aftur foringinn fer fyrstur við eltum aldrei hundinn !!! Ef hann reynir þetta snúum við í hann baki og jafnvel strunsum í hina áttina. Við eltum ekki hundinn og sækjum til hans. Frekar ef hann sýnir slíka hegðun og fæst ekki til að koma á eftir ykkur þá á að setja hann í langa tauminn og hala hann inn til okkar með dótið. Hundurinn skilar til eigandans – við sækjum það ekki til hans ! Slíkur eltingarleikur vindur upp á sig. Hann getur kannski talist í lagi hjá heimilishundi en leitarhundur má ekki haga sér svona.

Klapp / hrós / athygli

Foringinn byrjar allt og endar allt. Foringinn bíður upp á ást og umhyggju og athygli en hundurinn á ekki að heimta hana. Sbr. að ýta trýninu undir lófann / eða setjast við fætur og stara í augu / eða setjast við fætur og nudda sér. Við köllum hundinn til okkar eða setjumst hjá honum og klöppum honum þegar hann á síst von á og veitum honum klapp og gælur. Að sama skapi erum það við sem ákveðum hvenær er nóg komið af klappi. Við hættum áður en hann missir áhugann á gælunum og fer að athuga eitthvað annað. Þegar við erum búin að ákveða að hætta þá heimtar hann ekki meira ! Þá hegðun ignorum við – jafnvel í versta falli segjum NEI. En við verðum líka að vera meðvituð um hvað veldur því að hundurinn leitar til okkar, mjúkir karakterar þurfa stundum styrkingu og það er mannvonska að neita þeim um hana.

Bannsvæði

Hundar sem eru „frekir“ eða reyna að troðast upp virðingarstigann eiga ekki að fá að gera allt sama og eigandinn. Slíkir hundar eiga ekki að vera í sófum og rúmum. Slíkir hundar eiga að vera á gólfinu. Hann er ekki á sama stalli eða með sama sess og aðrir í fjölskyldunni.

Gott getur verið að kenna þeim að þeir megi ekki koma inn á ákveðin svæði í húsinu (en línan sem þeir mega ekki fara yfir þarf að vera skýr !) Sbr. þeir mega ekki koma inn í eldhús, eða svefnherbergi eða inn í stofu allt eftir því hvað þið viljið. Allir á heimilinu þurfa að vera samkvæmir sjálfum sér og samtaka um hvar nákvæmlega þessi mörk liggja. Það er ekki sanngjarnt fyrir hundinn að mega stundum og stundum ekki.

Athugið til dæmis hegðun hjá sumum karlhundum þegar heimilisfólk fer á klósettið þá fara þeir með, jafnvel snuðra í kringum klósettið þefandi á meðan. Hvað þýðir að míga yfir eða skipta sér af annars hlandi í hundaheiminum ??? Það að hundar séu að snuðra í kringum okkar klósett er ólíðandi og þeir ættu ekki að fá að sýna þessa hegðun. Bannið slíkum hundum að koma inn á salernið.

Snertingar

Foringinn má alltaf snerta undirmenn sína og hann má snerta þá hvar sem er. Skoðið eyru, augu, tennur, munn, tungu, loppur, klær, skott, lærin, og hvað sem ykkur dettur í hug amk. einu sinni á dag hver fjölskyldumeðlimur. Gerið þetta að tilefnislausu reglulega.

Leggið höndina á trýni hundsins (yfir trýnið) og haldið í smá stund. Takið um framloppu og haldið í smá stund.

Magaklór er bæði ánægjulegt fyrir hundinn og er hrein og klár foringjaæfing. Það að sýna magann og liggja glenntur á bakinu er mesta undirgefni sem hundur sýnir öðrum. Enn og aftur þið bjóðið magaklór en hundur sem hendir sér á bakið og heimtar klór er ignoraður. Aldrei neyða hund á bakið. Ef þið hafið beitt hund hörku og hann hendir sér á bakið er hann óöruggur og er að biðjast vægðar, í slíku tilfelli þurfið þið að endurskoða atferli ykkar í garð hundsins.

Gerið ýmis partýtrix : látið hundinn læra að heilsa og „gefa five“, blikka öðru auganu, brosa, rúlla sér, liggja dauður, ganga á afturfótunum og hvað sem er.

Allskyns snyrtingar s.s. að klippa neglur, skafa tannstein, kemba hundinn, þrífa eyrun eða augun krefst þess að hundurinn hlýði og sætti sig við það sem þið ákveðið að gera. Hann skal vera rólegur á meðan og þið hættið ekki fyrr en hann er rólegur ekki láta hann komast upp með að hrista sig lausan. Takið hann frekar og strjúkið einu sinni og segið frjáls, næst strjúkið þið tvisvar, næst þrisvar og svo næst jafnvel bökkum við og strjúkum aftur bara einu sinni, svo næst fjórum sinnum og svo koll af kolli. Þannig að smám saman lærir hann að þetta er bara tímabundið og er oftast fljótt búið. En þið ákveðið hvenær þetta er búið ekki hann !

Til þess að hundurinn leyfi allt ofantalið þarf hann að treysta ykkur 100% – þið verðið að vera traustsins verð. Allir má meiða eða þvinga hundinn þannig að hann upplifi þetta sem kvöl. Þetta á að vera leikur, hundurinn upplifir hann ekki skemmtilegan en hann veit að þetta tekur fljótt af og veldur honum engum sársauka.

Venjið hann við snertingum um allan líkama. Einkum hvolpana.

Þetta auðveldar líka dýralæknaheimsóknir framtíðarinnar. Athugið að það að standa klofvega yfir hundi og kemba hann er mjög dóminerandi staða og ættuð þið að forðast hana.

Líkamstjáningin

Það eru ákveðnir hlutir sem foringjar gera (og gera ekki) þegar kemur að líkamsbeitingu. Hundar tjá sig ekki með orðum heldur með líkamsbeitingu.

Ef þið horfið á úlfamyndir eða myndir um villta hunda þá eru foringjahundar iðulega með uppsperrt eyrun, standa uppréttir með brjóstkassann fram, höfuðið reist og rófan beint upp í loft. Þeir eru ekki dillandi rófunni eða öllum líkamanum, þeir eru þráðbeinir eins og hermenn. Vökulir, hlustandi og um leið sýna vald sitt með festu. Þeir horfa óhræddir í augu hinna hundanna, sem hundar gera einungis til að sýna vald sitt eða yfirráð.

Ef þeir ætla að sýna öðrum hundi vald sitt þá leggja þeir framloppu upp á herðablað hins hundsins eða bak hans. Hinn hundurinn bregst við með því að beygja sig undir vald foringjans : beygir sig undan þunga loppunnar, leggur aftur eyrun, lítur undan og teygir munnvikin aftur og sleikir jafnvel foringjann í framan (munnvikin). Foringinn leyfir þessa hegðun. Hann ákveður líka hvenær því skal lokið með því að snúa sér við og ganga í burtu. Undirlægjan fer ekki á undan, foringinn fer fyrstur !

Út frá þessu ættum við að skoða okkar hegðun gagnvart hundum, við eigum ekki að vofa yfir þá (halla okkur fram og yfir þá). Við eigum ekki að stara í augu þeirra. Við eigum ekki að rjúka beint á móti þeim með opinn faðminn. (Þetta er efni í aðra og lengri grein :-) )

Hundur er ekki maður

Persónugerum eða manngerum hundana ekki um of ! Ef það liggur illa á okkur eigum við ekki að vera að vinna með hundana okkar. Bíðum frekar þar til betur liggur á okkur. Hundurinn skilur ekki mannlegar tilfinningar og hundurinn er ekki með mannlegar tilfinningar. Hann hugsar ekki um liðna hluti og hann spáir ekki í framtíðina. Hann lifir fyrir núið og það eitt skiptir hann máli.

Verum góð við dýrin. Ögum ekki hundana með líkamlegu valdi, beitum vitsmunalegum yfirburðum okkar, gáfum og rökhugsun. Verum sterki leiðtoginn sem hundar þurfa og vilja hafa. Ef við finnum að við verðum vonsvikin eða komum okkur úr jafnvægi á æfingunni þá bara tökum við pásu og jöfnum okkur og höldum svo áfram.

Við höfum ekkert gagn af hræddum hundi. Hræddur hundur mun aldrei skila okkur árangri. Pössum allar leiðréttingar ! Ef við þurfum að leiðrétta á það að gerast á augnablikinu sem okkur er ekki hlýtt en ekki stuttu síðar. Við verðum að verðlauna fyrir rétta hegðun á sömu sekúndu g henni er framfylgt ef hundurinn á að skilja verkefnið og verðlaunin. Sama á við um leiðréttingar. Tímasetningar eru grundvallar atriði.

Hundar læra af endurtekningum, reglum og samkvæmni. Foringinn þarf alltaf að vera samkvæmur sjálfum sér. Litli sæti hvolpurinn sem mátti koma upp í sófa skilur ekki af hverju hann má ekki koma upp í sófa lengur þegar hann er orðinn „lítill“ sætur 50 kg. Schaeffer. Það sem má í dag á ekki að vera bannað á morgun. Ef við ákveðum að banna eitthvað eða leyfa eitthvað þá er það orðið að REGLU. Fyrir hund á allt sem foringinn segir að vera lög. Best er ef maður setur þetta upp svona : það er bara til svart og hvítt, það sem má og það sem ekki má. Orðin kannski og stundum eru ekki til í orðabók hundsins. Ekki heldur grá svæði, bara svart og hvítt / já eða nei.

Foringjaæfingar, grein eftir Kristínu Sigmarsdóttur, leiðbeinanda á vegum Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Uppfært í október 2014.

streamextreme.cc