Leitarhundar
Hafðu samband

Enginn ræður sínum næturstað !

Stundum getur “stutt ferðalag” orðið alllangt hér á landi, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Ófærð og illviðri tefja og gera mönnum oft lífið leitt. Þannig var það allavega hjá mér eftir annars mjög ánægjulega viðveru um borð í varðskipinu TÝ. Þar hafði ég verið um borð í átta daga, vegna sjómælingaverkefnis.
Þriðjudagsmorguninn 26. október síðastliðinn, komum við á varðskipinu TÝ í höfn á Siglufirði. Þar fór ég í land því að ég hafði fengið far þaðan með flutningabíl yfir á Sauðárkrók, til að ná flugvélinni til Reykjavíkur um kvöldið. Bíllinn átti að leggja af stað uppúr eitt en af því varð nú ekki. Ógurlegir “sniglar”, 3 stk. biðu þess að verða fluttir til Sauðárkróks og urðu að fara með í þessari ferð. Sniglarnir, sem notaðir eru við loðnubræðslur, voru svo stórir og langir að þeir pössuðu ekki inn í bílinn og ekki var hægt að setja þá á toppinn, því þá kæmumst við ekki í gegn um göngin. Bílstjóranum fannst tilvalið að fá aðstoðarmann við þetta og var ég óspart nýttur. Á endanum reddaðist þetta allt saman og við fengum fylgd lyftara og vörubíls gegnum göngin og þá var þessu öllu saman dröslað upp á topp. Jæja, þá var klukkan orðin hálffjögur, en ég átti að fljúga kl. 19:10, mæting 18:40, og nægur tími til stefnu, ekki nema klukkutíma akstur til Sauðárkróks. En vitlaust veður var á leiðinni, fljúgandi hálka og sóttist ferðin seint, en um hálfsjöleytið er við loks komum á Sauðárkrók var orðið hæglætis veður. Þá var orðið vitlaust veður í Reykjavík og öllu flugi aflýst, nú voru góð ráð dýr. Ég hringdi í vin minn og félaga Steinar Gunnarsson lögreglumann á Sauðárkróki. Hann bauð mér að sjálfsögðu kvöldmat og gistingu. Við erum báðir í leitarhundabransanum, hann formaður Leitarhunda SVFÍ og ég ritari. Okkur fannst því tilvalið að nota tímann og ræða málin. Steinar var að fara til Reykjavíkur morguninn eftir og ætlaði ég að fá far með honum, því var ætlunin að fara snemma í háttinn, en þá hringdi síminn. Útkall rauður, þriggja manna var saknað austur á Mývatni og vantaði leitarhunda strax á staðinn. Björgunarsveit Sauðárkróks ákveður þegar í stað að senda tvo menn með hunda austur og fór ég með þeim. Ég hringdi síðan í Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og bað um að ef þyrla yrði send á Mývatn, yrði hundurinn minn látinn fljóta með. Mjög vel var tekið í það og viðeigandi ráðstafanir gerðar.

Er á Mývatn var komið, var klukkan rúmlega 3 aðfaranótt miðvikudags. Við fórum rakleiðis til leitarstjórnar og lögðum á ráðin. Okkur var strax úthlutað svæði, og gengum við strönd Nesjalandstanga. Einn maður hafði þegar fundist, því miður látinn, og beindum við hundunum á það svæði. Enn var tveggja manna saknað. Hundarnir 4 sem voru með okkur gáfu allir vísbendingar á sama stað. En þeir geta greint lykt langar vegalengdir, þó svo að fólk sé í vatni. Þannig geta leitarhundar nýst við að þrengja leitarsvæði á sjó og á vötnum. Einnig er hægt að þjálfa hundana í að staðsetja hvar lyktin kemur upp á yfirborðið og þá er leitað með þá á bátum.

Um 6:30 kom svo þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF og með henni þrír hundar og tveir hundamenn. Þyrlan lenti og skilaði af sér hundum og mönnum, fór síðan strax aftur í loftið til leitar á vatninu. Mér var tilkynnt að hundurinn minn væri kominn og að honum yrði komið til mín þar sem ég var niðri við vatnið. Eftir skamma stund kom svo gulur hnoðri skoppandi, og var mjög kátur að sjá húsbónda sinn eftir 9 daga. Hún hoppaði og gelti af kátínu, en ekkert svona góða, farðu að leita. Tíkin lét ekki segja sér það tvisvar og hóf umsvifalaust leit og greip fljótlega einhverja “vindlykt” og fylgdi henni eftir og endaði á sama stað og hinir fjórir hundarnir. Ekki fór á milli mála að frá þessum stað, upp í vindinn og út á vatnið, var eitthvað. Leitarskilyrði voru mjög erfið, vatnið mjög gruggugt og kalt.

Í ljósaskiptunum finna þyrlumenn bát þremenninganna og þar með þrengdist leitarsvæðið enn frekar. Leit var haldið áfram að mönnunum tveimur en upp úr hádegi tilkynnir áhöfn þyrlunnar að þeir séu hættir leit, enda búnir að skila sínu. Ég og hundurinn minn Birta gerðum okkur klár til brottfarar og skömmu síðar lenti þyrlan þar sem við stóðum við vatnið og tók okkur uppí.

Ennþá var ég á ferðalagi, nú í loftinu. Við flugum til Akureyrar til að taka eldsneyti og til að nærast, síðan var flogið til Reykjavíkur. Á leiðinni sá ég yfir fjallaskagann í átt að Siglufirði þar sem ferðalagið byrjaði rúmum sólarhring áður og þá féll ég í svefn.

Reykjavík nóvember 2001.
Ágúst Magnússon

streamextreme.cc